aðalfundur

Mosfellsdalur, 25. febrúar 2021
Mættir fh. Stjórnar: Guðbergur, Ólafía, Rakel, Halldór og Ólafur
Dagskrá:
1. Ársskýrsla stjórnar
2. Reikningar liðins starfsárs lagðir fram
3. Kosning stjórnar og endurskoðanda
4. Lagabreytingar
5. Önnur mál.
1. Ársskýrsla stjórnar.
Guðbergur flutti skýrslu stjórnar en stjórnin kom að nokkrum málum á árinu. Unnið var áfram að bættu netsambandi handa íbúum dalsins, ljósleiðari var boðinn 22 staðföngum í dalnum og var farið í framkvæmdir síðla árs. Ekki var sátt með framkvæmd verkefnisins og verðlagningu meðal íbúa og átti stjórn fund með Mílu, Mosfellsbæ og Eflu vegna málsins. Íbúafundur var svo haldinn og í kjölfarið var sent inn erindi á bæjarráð. Í svari bæjarins við erindinu kom m.a. fram að farið hafi verið að öllum settum reglum í vali á staðföngum. Víghóll hefur óskað eftir fundi með bænum vegna málsins.
Enn var reynt að fá Mosfellsbæ til að fjölga brunahönum í dalnum og voru sendar inn fyrirspurnir á slökkvilið höfuðborgarsvæðis, mannvirkjastofnun og Mosfellsbæ. Þá var erindi sent á bæjarráð í nóvember. Í svari við erindi koma fram að verið er að vinna í úrbótum og var bætt við tveim brunahönum á árinu og einn til viðbótar kemur innan tíðar. Þá verða alls komnir sjö brunahanar í dalinn.
Víghóll sendi inn erindi til heilbrigðisnefndar í júní með athugasemdum vegna umsóknar um starfsleyfi á Dog Sledding Iceland en þar hafði verið óskað eftir rekstrarleyfi til að vera með um 50 sleðahunda sem staðsettir yrðu að Egilsmóum. Mikið ónæði varð og þá sérstaklega fyrir þá sem næst bjuggu og var hávaðinn frá hundunum farinn að ógna öryggi og heilsu manna. Fjöldi annarra íbúa sendi inn athugasemdir og var starfsleyfi hafnað. Erindi var svo aftur sent til heilbrigðisnefndar í nóvember til ítrekunar þegar ekki enn var búið að fjarlægja hundana af svæðinu.
Fundað var tvívegis með umhverfissviði varðandi göngu og hjólastígakerfi innan dalsins og í kjölfarið var sent inn erindi til bæjarráðs um hugmyndir og þörfina á að tengja íbúðabyggðina betur. Næsta skref er að senda inn tillögur til skipulagsnefndar vegna breytinga á aðalskipulagi. Tillagan er í þrem áföngum og eru íbúar tilbúnir að hefjast handa við fyrsta áfanga sem myndi tengja Æsustaðaveg, v/ Mosskóga-Dalsgarð við Hraðastaðaveg. Samþykki landeigenda er langt komið.
Athugasemd var send inn vegna breytinga á skipulagi í landi Lundar um fjölgun húsa og kom þar fram vilji íbúa til að halda blandaðri byggð og í hektara lóðum.
Áframhaldandi verkefni stjórnar eru að vinna að betri þjónustu við dalbúa og að kröfur okkar og þarfir séu virtar. Halda áfram að halda sérstöðu Mosfellsdals sem sveit í borg, stunda búskap, landbúnað og annað sem slíkt frelsi veitir. Halda áfram að tryggja öryggi Dalbúa og bæta lífsgæði til að mynda með að fá göngu og hjólastígakerfi innan dalsins. Fjölga brunahönum og halda áfram með vinnu að færslu Þingvallavegar að gamla vegstæðinu sem fer frá Nesjavallaveg að Kjósarskarði. Munum að mannauðurinn er dýrmætur og sameinumst um að útfæra þær hugmyndir sem eru okkur til hagsbóta.
2. Reikningar liðins starfsárs.
Ólafía lagði fram reikninga sem voru samþykktir.
Hér að neðan má sjá helstu kostnaðarliði:
3. Kosning stjórnar og endurskoðanda.
Í stjórn voru kosin áfram: Ólafía Bjarnadóttir, Rakel Baldursdóttir, Halldór Þorkelsson, Ólafur Thorkilde og Guðný Ragna Jónsdóttir. Ný í stjórn eru Sigríður Rún Kristinsdóttir og Guðmundur Hreinsson. Við þökkum Guðbergi kærlega fyrir samstarfið á liðnum árum. Stjórn mun skipta með sér verkum á fyrsta fundi nýrrar stjórnar.
Gísli Snorrason í Brekkukoti var jafnframt endurkjörinn endurskoðandi.
4. Lagabreytingar.
Voru engar þetta árið.
5. Önnur mál.
Íbúi kom á framfæri mikilvægi þess sátt sé meðal íbúa um gerð göngustíga í dalnum. Flestir eru sammála um að þetta sé til hagsbóta þó aðrir hafi áhyggjur að Buggybílar og fjórhjól, sem mikið ónæði er nú þegar, verði á þeysireið um stígana líkt og dæmi eru um á stígum sem nú þegar eru til staðar og eru þeir orðnir forugir og illfærir gangandi. Það þarf að vera mjög skýrt fyrir hverja stígarnir eru og/eða hvernig eigi að “umgangast” stígana.
Íbúi vakti athygli á hættu og vandamáli varðandi reiðstíginn um Köldukvísl við golfvöllinn en aðskilja þarf veginn og reiðleið áður en stórslys hlýst af. Þetta er flókið mál sem hefur verið reynt að finna lausn á í mörg ár án árangurs. Sveitarfélagið hefur skipulagsvaldið en eignarrétturinn er
sterkur og þar strandar málið. Best væri ef hægt væri að finna lausn meðal landeigenda. Ýmsar hugmyndir komu upp m.a. að hægt væri að færa reiðleið suður með ánni vestan megin. Stjórn Víghóls fer í að skoða málið með aðstoð íbúa.
Það eru 35 ár síðan íbúasamtökin voru stofnuð og vill stjórn halda afmælishátíð seinni hluta sumars. Til að það geti orðið þarf að fá aðstoð íbúa við skipulagningu og eru allir þeir sem hugmyndir hafa eða vilja verða að liði beðnir um að setja sig í samband við stjórn (vigholl@mosfellsdalur.is)
Í því framhaldi var rætt um Gvendarreit og væri nú gaman að geta endurvakið hann. Stjórn var með áform um slíkt en það strandaði bæði á að mikil vinna er að taka svæðið í gegn og aðkoma er ekki góð, engin bílastæði. Hugmynd kom þá að mögulega væri hægt að útbúa stæði vestan megin, við Egilsmóann.
Í vinnu við nýtt aðalskipulag er m.a. verið að vinna að skilgreiningu á Mosfellsdal sem dreifbýli eða þéttbýli. Vilji íbúa er skýr en öll viljum við halda sérstöðu dalsins og veljum dreifbýli. Vont að ekki sé tekið samtalið við íbúa þegar breytingar er varða dalinn eru á borðum.
Almenningssamgöngur eru ekki góðar og úr þarf að bæta. Fyrir um 20 árum kom strætó á klukkustunda fresti. Í dag er hægt að panta leigubíl, með 30 mín fyrirvara, sem ekki er hægt að treysta á. Þennan leigubíl er hægt er að panta sex sinnum yfir daginn á virkum dögum. Meirihluti íbúa vill fá bættari samgöngur. Þetta var auðveldara þegar strætóinn var á vegum Mosfellsbæjar, nú er það byggðasamlagið, höfðuborgarsvæðið, sem tekur ákvarðanir um reksturinn. Ásgeir Sveinsson er okkar fulltrúi þar. Samgöngumál eru greinilega heit og á meðan sumir segja að þetta gangi ekki vilja aðrir að þetta sé forgangsmál.
Stjórn Víghóls getur kannað hvað hægt sé bæta úr. Stjórn Víghóls vill koma á framfæri að hægt er að senda fyrirspurnir, ábendingar og hugmyndir allan ársins hring á netfangið: vigholl@mosfellsdalur.is
Hvetjum við ykkur til að kíkja á heimasíðuna og senda okkur hugmyndir, myndir, sögur úr dalnum og hvaðeina sem ykkur dettur í hug að gæti átt erindi á heimasíðu okkar okkar dalbúa. http://mosfellsdalur.is/
Fundi slitið.