Aðalfundur
Mosfellsdalur, 20. febrúar 2020
Fundargerð aðalfundar Víghóls
Mættir f.h. stjórnar: Guðbergur, Ólafía, Jóhannes og Rakel
Í upphafi fundar mættu Kristinn Hauksson, ráðgjafi frá EFLU verkfræðistofu og Þorsteinn Sigvaldason, frá umhverfissviði Mosfellsbæjar til að kynna útboð á ljósleiðara. Glærur frá kynningunni má nálgast hér. Að því loknu tóku við hefðbundin aðalfundarstörf.
Dagskrá:
- Ársskýrsla stjórnar
- Reikningar liðins starfsárs lagðir fram
- Kosning stjórnar og endurskoðanda
- Lagabreytingar
- Önnur mál.
Ársskýrsla stjórnar.
Stjórn Víghóls kom að ýmsum málum á árinu 2019.
Fram kom á aðalfundi að það sé eindreginn vilji dalbúa að áfram verði gert ráð fyrir blandaðri landnotkun, íbúðar og landbúnaðarsvæði með hektaralóðum og að því verði komið á framfæri við Mosfellsbæ vegna gerð nýs deiliskipulags. Var undirskriftarlisti gerður og eru margir fbúnir að skrifa en enn vantar þó nokkra á listann. Einnig var farið fram á að gerðir yrðu göngu- og hjólastígar innan hverfis í dalnum og er það komið í ferli.
Staða öryggismyndavéla í Dalnum er að sögn Óskars, deildarstjóra nýframkvæmda, komið í útboðsferli og reiknum við með að uppsetning þeirra verið á þessu ári.
Sent var inn erindi til Mosfellsbæjar um að göngustígar meðfram Þingvallavegi væru mokaðir oftar og hefur bærinn brugðist vel við því erindi.
Ljósleiðaramálin eru í ferli. Mosfellsbær sótti um styrk í fjarskiptasjóð sem var samþykkur og eru 22 heimili innan styrkveitingar en þau heimili sem eru komin með ljósnet eru ekki styrkhæf. Farið verður í útboð á næstunni og stefnt er á að framkvæmdir hefjist í sumar og ljúki á þessu ári. Lagt er til að farið verði í svokölluð „Byggja, eiga og reka“ útboðsleið. Þá verður fjarskiptafélögum boðið að sækja um styrk til uppbyggingar kerfisins og hvatt verður til að óstyrkhæfir staðir verði tengdir líka á markaðslegum foresendum. Gert er ráð fyrir 250.000 kr. inntaksgjaldi pr. heimili. Ekki var þó mikil ánægja meðal fundargesta að dalbúar þurfi að greiða það verð þegar aðrir íbúar Mosfellsbæjar þurftu ekkert að greiða fyrir.
Brunahanar í Mosfellsdal eru ekki samkvæmt reglugerðum, allt of langt er á milli þeirra og ekki nægt vatn. Gerð var athugasemd við Mosfellsbæ 2018 og 2019 um þetta mál og okkur tjáð að farið verði í að lagfæra þetta en engin tímasetning fylgdi. Vatnsöflun er á ábyrgð sveitarfélagsins en ekki slökkviliðsins. Dalbúar eru beðnir um að huga að eigin brunavörnum og hafa reykskynjara og slökkvitæki á hverju heimili.
Þann 14. desember bauð skógrækt Mosfellsbæjar dalbúum að sækja sér jólatré á kostakjörum og mættu fulltrúar Víghóls í fjallið með heitt súkkulaði, smákökur og tendrað var í eld til að ylja sér eftir að hafa fundið fallegt tré.
Heimasíðan mosfellsdalur.is er í uppfærslu þar sem Olla hefur tekið að sér hlutverk vefstjóra og ýmislegt nýtt og skemmtilegt er á döfinni.
2. Reikningar liðins starfsárs.
Ólafía lagði fram reikninga liðins árs sem voru samþykktir.
3. Kosning stjórnar og endurskoðanda.
Í stjórn voru kosin áfram: Ólafía, Rakel, Halldór og Guðbergur. Ný í stjórn eru Guðný í Víðihlíð og Ólafur í Hveramýri. Við þökkum Jóhannesi (Jóa) og Signý kærlega fyrir samstarfið á liðnum árum. Fimm eru kosin í stjórn og einn varamaður.
Gísli var jafnframt endurkjörinn endurskoðandi með miklu lófaklappi.
Nýkjörin stjórn:
Ólafía Bjarnadóttir, gjaldkeri
Rakel Baldursdóttir, ritari
Halldór Þorkelsson, meðstjórnandi
Guðbergur Guðbergsson, formaður
Guðný Ragna Jónsdóttir, meðstjórnandi
Ólafur Thorkilde, varamaður
4. Lagabreytingar.
Tillaga um tvær lagabreytingar voru lagðar fyrir og voru þær á 4.gr og 5.gr. Samþykkt lög í heild sinni er að finna neðst í fundargerð.
Áður samþykkt 4. gr.
Félagsaðild. Allir sem hafa lögheimili í Mosfellsdal hafa heimild til þess að ganga í félagið. Aðrir sem óska eftir aðild verða að fá samþykki stjórnar til inngöngu í félagið.
Tillaga stjórnar að breytingu á 4.gr: Hafnað
Félagsaðild. Allir íbúar með lögheimili í Mosfellsdal 18 ára og eldri teljast félagar og fá send félagsgjöld í valgreiðslu í heimabanka. Aðrir sem óska eftir aðild verða að fá samþykki á aðalfundi til inngöngu í félagið.
Tillaga fundarins að breytingu á 4.gr. Samþykkt
Félagsaðild. Allir íbúar með lögheimil í Mosfellsdal 18. ára og eldri teljast félagar. Félagsgjald er sent á hvert heimili í valgreiðslu. Aðrir sem óska eftir aðild verða að fá samþykki á aðalfundi til inngöngu í félagið.
Áður samþykkt 5. gr.
Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi. Aðeins félagsmenn sem greitt hafa félagsgjöld hafa atkvæðisrétt.
Tillaga stjórnar að breytingu á 5.gr: Samþykkt
Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Allir íbúar geta verið þátttakendur í aðalfundi. Allir félagsmenn hafa atkvæðisrétt.
5. Önnur mál.
Fyrirspurn kom upp varðandi frárennslismál. Ekkert er í bígerð að svo stöddu varðandi skolpið en hvað annað varðar þá verða sett upp tvö ræsi við Þingvallaveg þegar farið verður í framkvæmdir við hann. Tillaga var borin upp að öll hús verði með skolphreinsistöð og var það einróma samþykkt að farið verði í langtímamarkmið og sett upp stefnumörkun í þeim málum fyrir næsta aðalfund.
Hugmynd kom frá íbúa að skoða hvort möguleiki sé fyrir hendi að setja upp sorpmóttökustöð í hverfum og myndi það styðja við loftslagsmál og heilsueflandi samfélag.
Ábending kom um að meira skipulag þarf að vera varðandi trjárækt í hlíðum fjallanna hér í dalnum og einnig að mikil lúpína er búin að sá sér.
Bent var á að varðandi göngu-og hjólastíga er mikilvægt að farið verði eftir nýjum reglum um slíkar umferðaræðar og verklagi EFLU í þeim málum.
Búið er að vera að skipta út ljóskúplum á ljósastaurum í Dalnum þannig að töluverð ljósmengun hlýst af. Hafa þarf í huga að það þurfa að vera ljósastýrðir kúplar líkt og voru áður.
Stjórn Víghóls vill koma á framfæri að hægt er að senda fyrirspurnir og hugmyndir allan ársins hring á netfangið
vigholl@mosfellsdalur.is
Hvetjum við ykkur til að kíkja á heimasíðuna og senda okkur hugmyndir, myndir, sögur úr dalnum og hvaðeina sem ykkur dettur í hug að gæti átt erindi á heimasíðu okkar okkar dalbúa. http://mosfellsdalur.is/
Fundi slitið.
Lög Víghóls
1.gr.
Félagið heitir Víghóll.
2. gr.
Tilgangur félagsins er að standa vörð um sameiginleg hagsmunamál íbúa í Mosfellsdal.
3. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með að fylgjast með þeim málum er varða hagsmuni íbúa Mosfellsdals, t.d. skipulagsmálum og fleira.
4. gr.
Félagsaðild. Allir íbúar með lögheimil í Mosfellsdal 18. ára og eldri teljast félagar. Félagsgjald er sent á hvert heimili í valgreiðslu. Aðrir sem óska eftir aðild verða að fá samþykki á aðalfundi til inngöngu í félagið.
5. gr.
Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Allir íbúar geta verið þátttakendur í aðalfundi. Allir félagsmenn hafa atkvæðisrétt.
6. gr.
Aðalfund skal halda eigi síðar en 10. mars ár hvert og skal boða til hans með að minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir: 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara 2. Skýrsla stjórnar lögð fram 3. Reikningar lagðir fram til samþykktar 4. Lagabreytingar 5. Ákvörðun félagsgjalds 6. Kosning stjórnar 7. Önnur mál
7.gr.
Stjórn félagsins skal skipuð 3-5 félagsmönnum, formanni og 2 – 4 meðstjórnendum, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.
8.gr.
Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Félagsgjöld skulu innheimt árlega.
9. gr.
Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið til hagsmuna fyrir íbúa Mosfellsdals og fagnaði á vegum íbúa Mosfellsdals
10. gr.
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Reykjadal.