Stjórnarfundur
Mosfellsdalur, 18. ágúst 2020
Fundargerð stjórnar Víghóls
Mættir: Guðbergur, Guðný, Halldór, Ólafía og Rakel.
Ljósleiðari í Mosfellsdal.
Töluverð umræða hefur verið á samfélagsmiðlum meðal íbúa um setningu ljósleiðara í dalinn og kalla íbúar eftir svörum vegna mismunar á íbúa sveitarfélagsins á kostnað vegna lagningu ljósleiðara. Stjórn Víghóls mun óska eftir fundi með Mílu og bænum og óska eftir útskýringum og skýrum svörum við spurningum sem brenna á íbúum varðandi lagningu ljósleiðara og í framhaldi halda íbúafund með dalbúum.
Á síðasta aðalfundi sem haldinn var þann 20.02.2020, óskaði stjórn Víghóls við bæinn eftir að fá kynningu á ljósleiðara í dalinn þar sem íbúum gafst færi á spurningum. Á fundinn mættu Kristinn Hauksson, ráðgjafi frá EFLU verkfræðistofu og Þorsteinn Sigvaldason, frá umhverfissviði Mosfellsbæjar til að kynna útboð á ljósleiðara. Fundargerðina og glærur af kynningunni má nálgast á www.mosfellsdalur.is. Fram kom á fundinum óánægja stjórnar Víghóls og íbúa, þeirra sem mættu, að dalbúar þyrftu að greiða fyrir þjónustuna en aðrir íbúar sveitarfélagsins ekki.
Rekstrarleyfi hundasleðaleigu.
Þann 15. júní sl. sendi stjórn Víghóls inn athugasemd vegna umsóknar á rekstrarleyfi hundasleðaleigu í dalnum þar sem slík starfsemi ógnar öryggi íbúa og brýtur í bága við grein 3.1 og 3.2 um hávaðamengandi starfsleyfi. Fjöldi annarra athugasemda frá íbúum barst og var rekstrarleyfi hafnað. Fyrirtækinu/eigendum var gert að fjarlæga hundana af svæðinu fyrir 6.ágúst sl. en það hefur enn ekki verið gert. Senda þarf inn fyrirspurn til Heilbrigðisnefndar um hvað tefur.
Fundi slitið.