Stjórnarfundur
Mosfellsdalur, 07. desember 2020
Mættir: Rakel, Ólafía, Ólafur, Guðbergur og Guðný.
Fundurinn fór fram í gegn um fjarfundarbúnað.
Jólatré í Æsustaðafjalli
Skógræktin býður Dalbúum að koma í Æsustaðafjall og ná sér í jólatré. Laugardagurinn 12. Desember hentar vel. Olla og Rakel taka að sér verkið. Gera þarf auglýsingu inn á „Íbúar í Mosfellsdal". Þetta er annað árið sem Víghóll kemur að þessu.
Sleðahundar
Þann 4. desember sendum við ítrekun á heilbrigðisnefnd varðandi rekstrarleyfi sleðahunda að Egilsmóum.
Dalalæðan
Undirbúningur að útgáfu Dalalæðunnar. Dóri og Duna ritstjórar blaðsins eru að safna efni í blaðið. Jói safnar saman auglýsingum.
Jólaball í Reykjadal
Jólaball barnanna í dalnum fellur væntanlega niður vegna Covid í ár. En undanfarin ár hefur kvenfélagið í dalnum staðið að jólaballi og Víghóll styrkt komu jólasveinsins.
Brunahanar í Mosfellsdal
Þann 4. nóvember var sent erindi til bæjarráðs Mosfellsbæjar þar sem stjórn Víghóls óskar upplýsinga vegna brunahana í Mosfellsdal. Stjórn Víghóls kallar eftir aðgerðum til úrbóta upplýsingar um slökkvivatn og fjölda brunahana sem eru fyrir hendi í Mosfellsdal og fer fram á að vatnsöflun í Mosfellsdal verði tryggð og brunahönum komið fyrir þar sem þá vantar sem allra fyrst með tilliti til öryggi íbúa ef bruni kemur upp í íbúðarhúsnæði í Mosfellsdal.
Bæjarráð fól framkvæmdarstjóra umhverfissviðs svörun erindis á 1465 fundi bæjarráðs. Í svarbréfi kemur m.a. fram:
Í viðmiðunarreglum um brunahana er gerð krafa um staðsetningu brunahana á a.m.k. 200 m fresti í þéttbýli. Engar slíkar reglur eru um brunahana í dreifbýli eða á landbúnaðarsvæðum og er engin krafa um brunahana í dreifbýli, en stærsti hluti Mosfellsdal er samkvæmt skipulagi skilgreindur sem slíkur.
Vatnsveita Mosfellsbæjar hefur sett upp tvo nýja brunahana í Mosfellsdal á yfirstandandi ári, en alls eru þar 6 brunahanar, þar sem gert er ráð fyrir drægni 300 m út frá hverjum brunahana fyrir sig. Þá stendur til að bæta við brunahana við Roðamóa fyrir árslok 2020, þannig að fjöldi brunahana verður þá alls 7 og nær yfir þéttustu byggð Mosfellsdals.
Unnið hefur verið ötullega að endurnýjun á stofnlagnakerfi í Mosfellsdal á síðastliðnum 4-5 árum af hálfu Vatnsveitu Mosfellsbæjar. Til stóð að ljúka þeirri framkvæmd síðastliðið sumar, en það tókst ekki m.a. vegna mótmæla frá ábúendum í Laxnesi I. Hins vegar er stefnt að því að ljúka umræddri framkvæmd um mánaðarmótin í desember 2020, ef veður leyfir og verður þá heildarendurnýjun stofnlagnakerfis vatnsveitu í Mosfellsdal að mestu lokið.
Til upplýsingar þá hefur verið unnið að eftirtöldum vatnsveituframkvæmdum* undanfarin
ár í Mosfellsdal:
2015-2020: Endurnýjun 225 mm stofnlagnar vatnsveitu í Mosfellsdal frá Laxnesdýjum
2018: Lögð ný 110 mm lögn frá Reykjahlíð 2 að Hlaðgerðarkoti
2018: Uppsetning á 3 nýjum dælum, til þess að auka þrýsting vatnsveitukerfis
2019-2021: Nýjar aðveitulagnir að Lundi vegna uppbyggingar þar
2020: Lögð ný 180 mm lögn frá Helgadalsvegi að nýrri byggð í landi Hraðastaða
2020: Tveir nýir brunahanar settir upp í Mosfellsdal og sá þriðji í vinnslu.
Frekari verkefni eru á áætlun varðandi uppbyggingu vatnsveitu í Mosfellsdal, en það stærsta er vatnsborun sem vonandi skilar nýjum vatnsbólum fyrir dalinn og Mosfellsbæ allan. Þá er gert ráð fyrir endurnýjun á styttri köflum ásamt uppsetningu á brunahönum víðar, svo sem við Gljúfrastein.
Þess má geta að framangreind verkefni eru í samræmi við áætlun um uppbyggingu vatnsveitu sem bæjarráð samþykkti í byrjun síðasta kjörtímabils.
Ljósleiðarmál
Haldinn var íbúafundur þann 3 september sl. vegna lagningu ljósleiðara og í kjölfarið var sent inn erindi á bæjarráð vegna málsins sem lýtur efnislega að því að Mosfellsbær greiði að fullu lagningu ljósleiðaratengingar í Mosfellsdal, að undanskildum styrk úr Fjarskiptasjóði. Jafnframt var þess óskað að kannað yrði hvort fleiri staðir væru styrkhæfir. Erindi nr. 202009338 var tekið fyrir á 1463 fundi bæjarráðs.
Þann 29 október barst svarbréf frá lögmanni bæjarins þar sem m.a. kemur fram:
Samkvæmt reglum fjarskipasjóðs verða styrkhæfir staðir að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
1. Þar er heimili þar sem íbúi (eða íbúar) er skráður með lögheimili og hefur þar heilsársbúsetu. Miða á við lögheimili eins og þau eru skráð 1. desember 2018 eða síðar.
2. Þar er fyrirtæki með heilsársstarfsemi og viðveru í viðkomandi húsi eða íbúð.
3. Kirkjur, veiðihús, félagsheimili o.s.frv. enda sé þar heilsársstarfsemi þótt hún sé mismikil eftir árstímum.
4. Fjarskiptastaðir og veitumannvirki.
5. Staðir í dreifbýli í sveitarfélaginu, þar sem er hvorki nú í boði né staðfest áform
markaðsaðila um að bjóða upp á 100Mb/s eða stærri þráðbundna NGA tengingu.
Hvað varðar lið 5 þá kemur fram í verklagsreglum Póst- og fjarskiptastofnunar um gerð staðarlista að litið sé á að VDSL tenging, svokallað ljósnet, teljist vera NGA tenging sem vísað er til í 5. lið, hvort sem tengingin uppfyllir þær kröfur um að ná 100 Mb/s eða ekki. Skipti því ekki máli þó mæling á hraða tenginga geti verið breytileg frá degi til dags og eftir tíma dags, þ.e. að hún nái ekki alltaf 100 Mb/s.
Líkt og þekkt er lagði Míla ljósnet á þá staði í Mosfellsdal þar sem byggð er þéttust á árinu 2018. Leiðir það til þess að samkvæmt ákvæðum reglna Fjarskiptasjóðs uppfylla þau staðföng ekki skilyrði þess að fá styrk á vegum verkefnisins Ísland ljóstengt.
Umhverfissviði var falið að undirbúa útboð á 1400. fundi bæjarráðs.
Útboðið fól í sér að bjóðanda var skylt að tengja þau staðföng sem voru styrkhæf (skv. reglum fjarskiptasjóðs) og að auki var óskað eftir að bjóðandi myndi skilgreina og skuldbinda sig til að tengja fleiri staðföng (ekki styrkhæf) á sömu forsendu.
Við val í útboði væri bæði horft til kostnaðar og þeirra auka staðfanga sem bjóðandi myndi skuldbinda sig til að tengja á sömu markaðskjörum, utan styrksins.
Verkfræðistofan EFLA var ráðin til að halda utan um útboðið og til að vera Mosfellsbæ til ráðgjafar í málinu, þ.m.t. að vinna staðfangalista um styrkhæf staðföng í samræmi við reglur Fjarskiptasjóðs, út frá upplýsingum frá Póst- og fjarskiptastofnun, Þjóðskrá og heimasíðum fjarskiptafyrirtækjanna.
Áður en útboðið fór fram var haldinn kynningarfundur fyrir íbúa Mosfellsdals í samráði við Víghól þann 20. febrúar 2020 kl. 20 í Reykjadal í Mosfellsdal, og voru fulltrúar Mosfellsbæjar á þeim fundi Kristinn Hauksson, ráðgjafi og Þorsteinn Sigvaldason. Kristinn kynnti erindið með 20 mínútna innleggi. Í glærum sem kynntar voru á fundinum kemur meðal annars skirt fram að 22 staðföng séu styrkhæf en 86 staðföng séu það ekki. Það er því rangt sem fram kemur í erindi Víghóls að ekki hafi farið fram kynningarfundur um verkefnið.
Á 1443. fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar var samþykkt að ganga að tilboði Mílu í uppbyggingu og rekstur ljósleiðarakerfis í dreifbýli Mosfellsbæjar. Í tilboðinu kemur fram að Míla nýti styrk fjarskiptasjóðs til að tengja þau staðföng sem töldust styrkhæf skv. reglum Fjarskiptasjóðs, en byðist auk þess til að tengja 12 staðföng, sem ekki flokkuðust sem styrkhæf, á sömu kjörum vegna samlegðaráhrifa framkvæmdanna.
Frá upphafi hefur legið fyrir að þar sem meirihluti staðfanga í Mosfellsdal hafa nú þegar 100Mb/s nettengingu (ljósnet) yrði aðeins lítill hluti þeirra styrkhæfur. Var þetta m.a. kynnt á fundinum í febrúar 2020, líkt og rakið hefur verið. Skilyrði Fjarskiptasjóðs og verklagsreglur um gerð staðarlista, eru skýr um að þau staðföng sem hafa ljósnetstengingu teljist ekki uppfylla skilyrði um að vera styrkhæf. Farið var yfir staðfangalistann og ekki var tilefni til að gerðar yrðu breytingar á honum.
Þátttaka sveitarfélagsins í kostnaði íbúa vegna lagningar ljósleiðara utan verkefnisins Ísland ljóstengt felur í sér sjálfstæða ákvörðun sem kallar á sérstaka skoðun þar sem horfa þarf til ýmissa sjónarmiða enda er um ríkisstyrk að ræða auk þess sem huga þarf að jafnræði gagnvart öðrum staðföngum í skilgreindu dreifbýli sveitarfélagsins. Á þessu stigi máls voru ekki taldar forsendur til að fallast á slíka beiðni. Sé þess óskað af hálfu Vighóls stendur til boð að farið verði yfir efni bréfs þessa á fundi.
Víghóll mun þiggja boð lögmanns um að fara yfir efni bréfsins.
Fundi slitið.